Ársskýrslur‎ > ‎

2010

Starfsskýrsla u.m.f. Æskunnar 2010


Árið 1903 var stofnað á sunnanverðri Svalbarðsströnd félagið Æskan. Stofndagur félagsins var í maí og voru 5 piltar á aldrinum 8-13 ára stofnfélagar. Fyrstu lög félagsins bera þess greinileg merki að um ungmennafélag er að ræða þar sem ekki teljast þeir tækir í félagið sem eldri eru en 16 ára. Æskufélagið starfaði með nokkrum þrótti og var félagssvæðið fjórir fremstu bæir sveitarinnar og á starfstíma félagsins voru alls 21 félagi skráður í félagið.

Á aðalfundi Æskunnar þann 16. janúar 1910 kom tillaga frá Aðalheiði Baldvinsdóttur á Veigastöðum að félagið skyldi vera ungmennafélag allrar sveitarinnar og var það samþykkt. Fagnaði því umf. Æskan aldarafmæli á árinu 2010 og var tímamótanna einkum minnst með tvennum hætti: sögusýningu og afmælishátíð í tengslum við Æskudaginn.

Þann 1. maí 2010 opnaði í Safnasafninu sögusýning er stiklaði á stóru í 100 ára sögu félagsins og lét Safnasafnið félaginu í té Svalbarðsstrandarstofu undir sýninguna auk þess sem þau Magnhildur Sigurðardóttir og Níels Hafstein, safnstjórar, liðsinntu við uppsetningu sýningarinnar. Á sýningunni gat að líta muni er spönnuðu aldarsögu félagsins eins og gamla búninga knattspyrnuliðs karla og handboltaliðs kvenna, verðlaunagripir, allar fundargerðir félagsins frá stofnun auk ýmissa annarra heimilda um starf félagsins. Hitann og þungann af uppsetningu sýningarinnar bar formaður félagsins, Birkir Örn Stefánsson. Á heimasíðu félagsins, aeskan.umse.is, má sjá nokkuð af þeim gögnum sem voru sýnd á sögusýningunni og er áætlað að gera meira af þeim gögnum aðgengileg á síðunni.

Í september var Æskudagurinn haldinn og um leið var aldarafmælinu fagnað. Líkt og undanfarin ár nutum við liðsinnis kvenfélagsins við skipulagningu dagsins en til að gera daginn veglegri var leigður hoppukastali auk þess sem Björgunarsveitin Týr bauð upp á kassaklifur sem líkaði vel. Buðu kvenfélagskonur upp á kaffi auk þess sem sölutjöld voru opin. Þegar keppni í frjálsíþróttum var lokið fór verðlaunaafhending fram í skógarreit félagsins og kvenfélagsins norðan Safnasafnsins þar sem félagið bauð í pylsupartí af tilefni afmælisins auk þess sem stutt afmælisávarp var flutt. Veðrið lék við Æskufélaga þennan dag og að lokinni verðlaunaafhendingu gafst kostur á að skoða sögusýninguna í Safnasafninu sem margir nýttur sér.


Starfsemi félagsins á árinu var með hefðbundnu sniði. Frjálsíþróttaæfingar á vegum félagsins voru haldnar tvisvar í viku og voru þær vel sóttar. Þjálfari var Ari H. Jósavinsson og með aðstoð frá Eir Starradóttur. Frjálsíþróttafólk félagsins tók svo þátt í fjölda móta bæði innan UMSE sem fulltrúar Æskunnar og á landsvísu sem fulltrúar UMSE. Þar stóð unga fólkið sig með prýði.


Fótboltaæfingar voru haldnar fyrir 14 ára og yngri undir stjórn Þóris Stefánssonar. Einnig var haldið úti einni æfingu í viku fyrir eldri fótboltaiðkendur yfir sumartímann auk körfubolta yfir vetrartímann sem þó gekk furðu treglega á haustdögum 2010.


Einnig voru stundaðar hugaríþróttir og var grunnskólanemum boðið uppá skákkennslu undir leiðsögn Hjörleifs Halldórssonar yfir vetrartímann í samstarfi við Valsárskóla.


Aðalfundur Æskunnar var haldinn seint á árinu og urðu nokkrar mannabreytingar á stjórninni. Nýja stjórn skipa: Starri Heiðmarsson, Svanbjört Brynja Bjarkadóttir, Edda Línberg Kristjánsdóttir, Birkir Örn Stefánsson og Linda Stefánsdóttir.


Fyrir hönd stjórnar


Starri Heiðmarsson, formaður

Comments