Ársskýrslur‎ > ‎

2008

Starfsskýrsla u.m.f. Æskunnar 2008

 Árið 2008 var gott ár! Gamall draumur rættist þegar frjálsíþróttaaðstaða félagsins var endurbætt stórkostlega. Lagt var gerviefni á 100 m hlaupabrautina og stökkatrennu fyrir langstökk og hástökk. Naut félagið stuðnings frá Minningarsjóði Guðmundar Benediktssonar, Íþróttasjóði auk þess sem Svalbarðsstrandarhreppur studdi félagið dyggilega við framkvæmdina. Mikilsvert er einnig framlag nokkurra Æskufélaga og sveitunga sem lögðu hönd á plóginn á ýmsan hátt.

 Aðalfundur félagsins var haldinn í Valsárskóla 27. maí 2008. Einn nýr stjórnarmaður var kosinn, Valborg Stefanía Karlsdóttir en aðrir í stjórn eru: Starri Heiðmarsson, formaður, Halldór Arinbjarnarson, Edda Línberg Kristjánsdóttir og Birkir Örn Stefánsson.

 Almenn starfsemi félagsins á árinu var með hefðbundnu sniði. Frjálsíþróttaæfingar á vegum félagsins voru haldnar tvisvar í viku og voru þær vel sóttar einkum af yngri krökkunum. Frjálsíþróttaþjálfari var Edda Línberg Kristjánsdóttir, íþróttakennari. Frjálsíþróttafólk félagsins tók svo þátt í fjölda móta og stóð sig með prýði. Fótboltaæfingar voru haldnar fyrir 12 ára og yngri undir stjórn Þóris Stefánssonar og voru þær vel sóttar þetta sumarið. Skákkennsla var haldin í samstarfi við Valsárskóla og sá Hjörleifur Halldórsson um kennsluna.

 Annan september var Æskudagurinn haldinn og líkt og undanfarin ár nutum við liðsinnis kvenfélagsins við skipulagningu dagsins. Buðu kvenfélagskonur upp á kaffi auk þess sem sölutjöld voru opin. Á Æskudeginum var glæsileg, endurbætt frjálsíþróttaaðstaða félagsins vígð með hóphlaupi allra iðkenda félagsins. Tókst dagurinn vel til og þökkum við ungmennafélagar kvenfélaginu fyrir samstarfið.

 Líkt og síðustu vetur buðum við grunnskólanemum sveitarfélagsins til íþróttamorgna á laugardögum þar sem blandað er saman leikjum og æfingum. Hafa laugardagsmorgnarnir mælst vel fyrir meðal yngri krakkanna. Einnig hefur félagið haft forgöngu um körfubolta fullorðinna einu sinni í viku yfir vetrarmánuðina og fótbolta fyrir sama aldursflokk á sumrin.

                                                                        Fyrir hönd stjórnar

                                                                        Starri Heiðmarsson formaður

Comments