Starfsskýrsla u.m.f. Æskunnar 2007 Aðalfundur félagsins var haldinn í Valsárskóla 25. apríl 2007. Tveir nýjir stjórnarmenn voru kosnir: Edda Línberg Kristjánsdóttir og Sigríður Ingibjörg Stefánsdóttir en aðrir í stjórn eru: Starri Heiðmarsson, formaður, Halldór Arinbjarnarson og Birkir Örn Stefánsson. Á fundinum var lýst kjöri íþróttamanns Æskunnar en þann titil hlaut að þessu sinni Linda Ársælsdóttir en einnig voru heiðraðar þær Ólöf Línberg Kristjánsdóttir og Halldóra Sigríður Halldórsdóttir. Silfurmerki félagsins var veitt í fyrsta skipti og hlaut Svala Einarsdóttir það en hún hafði starfað samfleytt í stjórn félagsins í 10 ár, fyrst sem formaður 1997-2002, síðan sem meðstjórnandi og síðasta árið sem gjaldkeri. Starfsemi félagsins á árinu var með hefðbundnu sniði. Frjálsíþróttaæfingar á vegum félagsins voru haldnar tvisvar í viku og voru þær vel sóttar einkum af yngri krökkunum. Frjálsíþróttaþjálfari var Edda Línberg Kristjánsdóttir, íþróttakennari. Frjálsíþróttafólk félagsins tók svo þátt í fjölda móta og stóð sig með prýði. Fótboltaæfingar voru haldnar fyrir 12 ára og yngri undir stjórn Þóris Stefánssonar og voru þær frekar illa sóttar. Áttunda september var Æskudagurinn haldinn og líkt og undanfarin ár nutum við liðsinnis kvenfélagsins við skipulagningu dagsins. Buðu kvenfélagskonur upp á kaffi auk þess sem sölutjöld voru opin. Tókst dagurinn vel til og þökkum við ungmennafélagar kvenfélaginu fyrir samstarfið. Líkt og síðustu vetur buðum við grunnskólanemum sveitarfélagsins til íþróttamorgna á laugardögum þar sem blandað er saman leikjum og æfingum. Hafa laugardagsmorgnarnir mælst vel fyrir meðal yngri krakkanna. Einnig hefur félagið haft forgöngu um körfubolta fullorðinna einu sinni í viku. Fyrir hönd stjórnar Starri Heiðmarsson formaður |
Ársskýrslur >