Starfsskýrsla u.m.f. Æskunnar 2004
Aðalfundur félagsins var haldinn í Valsárskóla 26. apríl 2004. Engar breytingar urðu á stjórn félagsins en hana skipa: Starri Heiðmarsson, formaður, Halldór Arinbjarnarson, gjaldkeri, Ólöf Gústafsdóttir, ritari og meðstjórnendurnir Gunnar Ingi Ómarsson og Svala Einarsdóttir. Á fundinum var lýst kjöri íþróttamanns Æskunnar en þann titil hlaut að þessu sinni Ólöf Línberg Kristjánsdóttir. Í 2.-3. sæti urðu þær Sigríður Ingibjörg Stefánsdóttir og Sveinbjörg Jana Aðalsteinsdóttir. Starfsemi félagsins á árinu var með hefðbundnu sniði. Síðastliðið vor var boðið upp á sundnámskeið fyrir yngstu börnin undir leiðsögn Hrafnhildar Guðjónsdóttur, íþróttakennara. Frjálsíþróttaæfingar á vegum félagsins voru haldnar tvisvar í viku og voru þær vel sóttar einkum af yngri krökkunum. Frjálsíþróttaþjálfari var Hólmfríður Jóhannsdóttir, íþróttakennari. Frjálsíþróttafólk félagsins tók svo þátt í fjölda móta og stóð sig með prýði. Fótboltaæfingar voru haldnar fyrir 12 ára og yngri undir stjórn Árna Steinars Stefánssonar og Gunnars Björns Jónssonar og voru þær vel sóttar. Líkt og nokkur undanfarin ár voru allnokkrar framkvæmdir við hlaupabraut á svæði Æskunnar. 2003 var lokið við gerð 300 m hringbrautar en yfirborðslag hennar þótti ekki nóg þjappað. Í sumar var því tækifærið notað þegar stórvirkar vinnuvélar voru að vegagerð við Svalbarðseyrarafleggjarann og fengum við Stefán Þengilsson til að valta brautina fyrir okkur. Færum við Stefáni og Páli Hartmannssyni bestu þakkir fyrir aðstoðina. Sumarið 2003 var meginhluti knattspyrnuvallar félagsins þökulagður í sjálfboðavinnu. Þann fimmtung sem ekki var þökulagður 2003 er ætlunin að þökuleggja á komandi sumri. Síðsumars var Æskudagurinn haldinn og gekk kvenfélagið í lið með Æskunni að þessu sinni þannig að um íþrótta-, uppskeru- og markaðsdag var að ræða. Tókst afar vel til og vonandi verður framhald á samstarfi félaganna. 31. ágúst sá Æskan um Bændadagshlaup UMSE en hlaupið var um tún í nágrenni íþróttavallarins auk þess sem karlaflokkurinn þurfti að hlaupa niður í fjöru. Því miður var þátttakan fremur dræm af hálfu annarra félaga en okkar krakkar mættu vel og átti Æskan alls 19 af þeim 30 keppendum sem mættu til leiks.
Fyrir hönd stjórnar
Starri Heiðmarsson formaður |
Ársskýrslur >