Ársskýrslur‎ > ‎

2003

posted Dec 20, 2010, 1:27 PM by Þorvaldsdalsskokk UMSE   [ updated Jan 5, 2011, 12:02 PM ]

Ársskýrsla u.m.f. Æskunnar fyrir árið 2003.

 

Aðalfundur félagsins var haldin í Valsárskóla 2. apríl 2003. Engar breytingar urðu á stjórn félagsins en hana skipa nú: Starri Heiðmarsson formaður, Halldór Arinbjarnarson gjaldkeri, Ólöf Gústafsdóttir ritari og meðstjórnendurnir Gunnar Ingi Ómarsson og Svala Einarsdóttir. Á fundinum var lýst kjöri íþróttamanns Æskunnar en þann titil hlaut að þessu sinni Ólöf Línberg Kristjánsdóttir.

Starfsemi félagsins á liðnu ári var með hefðbundnu sniði. Síðastliðið vor var boðið uppá sundnámskeið fyrir yngri börnin undir leiðsögn Hrafnhildar Guðjónsdóttur líkt og undanfarin ár. Einnig sá Hrafnhildur í samvinnu við Birki Örn Stefánsson um frjálsíþróttaæfingar á vegum félagsins og voru þær vel sóttar, einkum af yngri krökkunum. Frjálsíþróttafólk félagsins tók svo þátt í fjölda móta og stóð sig með prýði. Fótboltaæfingar voru haldnar fyrir 12 ára og yngri undir stjórn Árna Stefánssonar og voru þær vel sóttar, einnig voru haldnar knattspyrnuæfingar hjá unglingaflokki stúlkna síðvetrar og fram á sumar. Í haust hófust síðan vikulegar æfingar í s.k. bumbukörfu en sú íþrótt er ætluð mönnum á besta aldri sem finna fyrir mikilli hreyfiþörf.

Í sumar voru miklar framkvæmdir við íþróttasvæði Æskunnar. Lokið var við að setja jöfnunarlag á 300 m hlaupabraut sem er umhverfis knattspyrnuvöll félagsins. Nú er einungis eftir að setja yfirlag á hlaupabrautina. Einnig voru jarðvegsskipti gerð á hástökksatrennusvæði og steyptur pallur undir kasthring. Síðsumars tóku svo ströndungar höndum saman og þökulögðu knattspyrnuvöll félagsins undir forystu Stefáns Tryggvasonar á Þórisstöðum. Var sú framkvæmd gerleg vegna óeigingjarns sjálfboðastarfs fjölda æskufélaga auk þess sem bændur í sveitinni lánuðu vélar sín og tæki til framkvæmdanna. Líkt og áður naut ungmennafélagið góðs stuðning sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps auk þess sem íþróttasjóður styrkti framkvæmdirnar.

23. ágúst var svo hinn árlegi Æskudagur haldinn og tókst með ágætum.

 

                                                           Fyrir hönd stjórnar

 

                                                           Starri Heiðmarsson formaður

Comments