Æskan - forsaga‎ > ‎sögubrot‎ > ‎

Upphaf Æskunnar

posted Dec 19, 2010, 2:35 PM by Þorvaldsdalsskokk UMSE

Formáli

 

Tekinn úr I. Bindi gjerðarbókanna.

 

Jeg ætla með fáum orðum að skýra frá tildrögum til stofnunnar Æskufélagsins og starfsemi þess áður en fundargjörðir þess voru skrifaðar, ef vera kynni að þessi bók, kæmi einhverntíma fyrir almenningssjónir.

              Félagið Æskan var stofnað þann 31. Maí 1903. Stofnendur þess voru fimm drengir, þeir:

  1. Bergþór Baldvinsson                             Geldingsá                             13 ára.
  2. Ferdinand Kristjánsson                             Meyjarhóli                             11 ára.
  3. Tryggvi Kristjánsson                            Meyjarhóli                            14 ára.
  4. Helgi Guðmundsson                            Halllandi                              8 ára.
  5. Haraldur Guðmundsson                            Halllandi                            11 ára.

Nokkur fyrirfarandi ár komu þessir drengir oft saman til þess að leika sér, eins og algengt er í sveitum. Meðal annars sem þeir ræddu þá um, var að stofna félag. Höfðu þeir heyrt getið um skemmtileg félög í sveitinni, sem þeir ýmissa orsaka vegna gátu ekki verið með í. Sú löngun varð alltaf meiri og sterkari hjá þeim að stofna málfunda og skemmtifélag, fyrir drengi á þessum fjórum fremstu bæjum sveitarinnar; Geldingsá, Meyjarhóli, Halllandi og Veigastöðum.

              Árið 1902 komst það á að haldnir voru fundir, þó ekkert væri skrifað af því sem rætt var og var það mest fyrir óþroskaðan skilning og fákunnáttu félagsmanna. En þeir sáu brátt að ekki mátti við það una og að nauðsynlegt væri að skrifa, það sem gerðist á fundunum, og gefa félaginu nafn. Gáfu þeir því nafnið Æskan.

              Ennfremur ákváðu þeir á undirbúningsfundum undir stofnfund, að hann skyldi vera 9. maí 1903 og þá skyldi fyrsta fundargerðin vera skrifuð. Eftir það sýna fundargerðirnar starfsemi félagsins, svo ekki verður farið um þetta fleiri orðum hér.

Meyjarhóli. 22.12 1909

Tryggvi Kristjánsson

Comments