Æskan - 100 ár‎ > ‎

100 ára saga

Æskan 80 ára 1990 - yfirlit eftir Kristínu Bjarnadóttur

posted Mar 20, 2011, 6:48 AM by Umf. Æskan   [ updated Mar 20, 2011, 7:56 AM ]

    Fyrir 87 árum stofnuðu fimm drengir á Svalbarðsströnd félag. Félag þetta hlaut nafnið Æskan og var ætlað börnum og unglingum á syðstu bæjum sveitarinnar. Tilgangur þess var að félagsmenn hittust, æfðu sig í að ræða skipulega ýmis málefni og skemmtu sér á ýmsan hátt.
    Félagið starfaði í þessari mynd í sjö ár. Þá kom Aðalheiður Baldvinsdóttir á Veigastöðum með þá hugmynd að félaginu yrði breytt í ungmennafélag fyrir alla sveitina. Tillagan var samþykkt og Ungmennafélagið Æskan var stofnað þann 7. mars 1910. Lög voru samin og Ferdinand Kristjánsson á Meyjarhóli sem þá var 18 ára gamall var kjörinn formaður. Fyrsti ritari ungmennafélagsins var Tryggvi Kristjánsson á Meyjarhóli og gjaldkeri var Aðalsteinn Halldórsson, Geldingsá.
    Tilgangur félagsins var meðal annars sá að "styðja, vernda og efla allt sem þjóðlegt er, og horfir íslensku þjóðinni til gagns og sóma". Og ennfremur "...að reyna af alefli að vekja löngun hjá æskulýðnum til starfa fyrir sjálfa sig, land sitt og þjóð með mannúð og rjettsýni". (Gjörðabók Málfundafélagsins "Æskan").
    Ungmennafélagið Æskan varð strax vinsælt á meðal yngra fólksins í hreppnum. Fundir félagsins og samkomur voru kærkomin tilbreyting á þessum tíma, þegar engir voru fjölmiðlarnir og samgöngur í veglausri sveitinni torveldari en nú er.
    Fyrstu árin hafði félagið engan samastað fyrir mannamót sín og varð því  að fá inni á sveitabæjunum, sem á þessum tíma voru torfbæir. Víða var þröngur húsakostur, en þrátt fyrir það var Æskufélögum alls staðar vel tekið og nutu þeir mikillar gestrisni.
    Meðlimum félagsins fjölgaði fljótt og strax árið 1911, voru þeir orðnir 48 talsins. Þegar þessi fjöldi félag var orðinn staðreynd var orðið ljóst að eitthvað yrði að gera í húsnæðismálum. Á fundi félagsins haustið 1913 stakk Jónatan Benediktsson á Breiðabóli upp á því að stofnaður yrði húsbyggingarsjóður. Tillagan var samþykkt og sjóðurinn stofnaður þá þegar. Leitað var til annarra félaga í hreppnum og til einstaklinga um fjárframlög í sjóðinn. Það var síðan einni heimsstyrjöld síðar og nokkrum árum betur að húsið var byggt. Þetta var árið 1922. Byggingarmeistari var Jóhann Kristjánsson múrari frá Akureyri en húsið var að öðru leyti að mestu byggt í sjálfboðavinnu. Það þótti mjög veglegt á sínum tíma og var samkomuhús félaganna í hreppnum um árabil. Húsið var í eigu hreppsins en er nú fyrir nokkru komið í einkaeign.
    En Æskumeðlimir komu fleiru í framkvæmd á þessum árum. Sundpollur var byggður þar sem heitir Stekkjarhvammur upp frá Brautarhóli og þar stóð félagið fyrir sundkennslu í köldu vatninu við erfiðar aðstæður.

    Árið 1911 gáfu hjónin í Tungu, þau Helgi Laxdal og Guðný Grímsdóttir Ungmennafélaginu og Kvenfélagi Svalbarðsstrandar land til trjá- og blómræktar. Land var valið þar sem nú er gróðrarreitur, neðan við Meðalheim. Þann 12. maí 1911 var hafist handa við að undirbúa jarðveginn fyrir gróðursetningu og unnu félögin í sameiningu. Landið var ræst fram og girt af.
"Gerður var vegur inn í reitinn og í boga frá vönduðu hliði vestur um reitinn og endar á sléttri flöt, þar sem hlaðnir voru upp tveir bogamyndaðir setubekkir austan við flötina, en hringmyndað blómabeð var á miðri flöt með sumarblómum... Þá var gerður lítinn en laglegur bolli sunnan vegar, skammt innan við hliðið, nefndist hann "kelerísbolli"".
                                                                (Guðmundur Benediktsson 30/12 1988)
    Plöntur voru sóttar á reiðingshestum í Vaglaskóg og nefndust fyrstu tvö tréin, sem gróðursett voru, Adam og Eva. Eins og áður var allt gert í sjálfboðavinnu, oftast á kvöldin og um helgar. Reiturinn var vel hirtur og heyjaður hvert sumar til margra ára. Nú vex þar villtur gróður.

    Ungmennafélagið starfaði mikið að félagsmálum í sveitinni strax frá upphafi. Til að mynda var leikstarfsemi mjög blómleg og fjöldinn allur af leikritum settur á svið. Til að byrja með fóru sjónleikirnir fram í baðstofunum, seinna í sláturhúsinu og loks í samkomuhúsinu, þar sem leikaðstaða var mjög góð. Félagið fór leikferðir í önnur byggðalög og önnur félög sóttu Æskuna heim með leiksýningar.

    Ýmsar skemmtiferðir voru farnar á vegum félagsins, auk þess sem það stóð fyrir útgáfu sveitarblaða, fyrst var það blaðið Búkolla, síðar Hrímfaxi og loks Hvöt. Oftar en ekki hittust menn og spiluðu framsóknarvist, sem þótti mjög vinsæl. Þá voru einnig haldin söngnámskeið á vegum félagsins.

    Fjáröflun hefur verið með ýmsu móti í gegnum árin. Stundum voru kartöflur ræktaðar í fjáröflunarskyni, en oftar var heyjað. á árunum frá 1912-1916 hafði félagið heyforðabúr, ef til harðinda kæmi. Bögglauppboð hafa verið haldin af og til nánast frá stofnun félagsins og notið mikilla vinsælda. Á síðustu árum hafa blóm verið seld við ýmis tækifæri, auk jólakorta og pappírs fyrir jólin. Basarar hafa verið haldnir og nú síðustu ár spilavistir, sem mælst hafa vel fyrir. Einnig hefur nokkur innkoma verið af gosdrykkja- og sælgætissölu á vegum félagsins.

    Ungmennafélagið hefur veitt þó nokkru fé til mannúðar- og menningarmála í gegnum árin. Það styrkti orgelkaup í Svalbarðskirkju 1927, gaf í Björgunarskútusjóð Norðurlands þegar hann var stofnaður og lagði fram fé til Finnlandssöfnunar Rauða krossins eftir stríð. Þá lét félagið fé af hendi rakna til Kristneshælis og til aðstoðar Vestmanneyjungum eftir eldgosið 1973. Fyrir utan þessar peningagjafir hafa ungmennafélagar oft lagt fram vinnu sína öðrum til aðstoðar.

    Árið 1914 stofnaði Ungmennafélagið Æskan Sparisjóð Svalbarðsstrandar, eftir tillögu Helga Laxdal þar um. Í fyrstu var aðeins um örlitlar peningaupphæðir að ræða í sjóðnum, en hann óx og dafnaði og varð að öflugri lánsstofnun. Í 20 ár starfsrækti Ungmennafélagið sjóðinn á sinni ábyrgð, en þá færði félagið hreppnum sjóðinn til eignar og var hann gerður að sjálfstæðri stofnun. Það var svo árið 1979 að sjóðurinn var lagður undir starfsemi Samvinnubankans á Svalbarðseyri, eftir að hafa verið rekinn farsællega um 65 ára skeið.
    
    Og félagsmenn létu hendur standa fram úr ermum við framkvæmdir. Árið 1931 byggðu þeir sundlaug með yfirbyggingu. Sund var kennt í lauginni með góðum árangri allt þar til yfirbyggingin fauk í ársbyrjun 1954. Laugin skemmdist illa, en var svo endurbyggð í því formi sem nú er.

    En víkjum nú að íþróttum. Það er líklega sá liður sem félagið er einna þekktast fyrir nú á dögum. Eftir að Ungmennafélagið var stofnað var fljótlega rætt um að gefa þyrfti félögum kost á að æfa einhverjar íþróttir. Í fyrstu var aðallega um glímu, sund, hlaup og skíðaíþróttir að ræða en seinna bættust fleiri íþróttagreinar við. Oft var keppt í þessum greinum innan félagsins og veittir verðlaunapeningar, sem keyptir höfðu verið. Félagið eignaðist ágæta glímumenn á þessum árum. Jóhannes Laxdal var þeirra fræknastur, en hann var einn besti glímumaður hér norðanlands um nokkurt skeið.
    Ungmennafélagið Æskan var einn af stofnendum Héraðssambands Þingeyinga 31. október 1914, en gekk síðan í sveitir Ungmennasambands Eyjafjarðar þann 12. febrúar 1938. Eftir það færðist nýtt líf í íþróttastarfsemi Æskunnar, en U.M.S.E. sendi hingað kennara sambandsins. Íþróttanámskeið voru haldin og stóðu yfir í 20-30 daga í senn. Hverju námskeiði lauk síðan með sýningu, sem voru vel sóttar og þóttu yfirleitt takast vel. Meðal kennslugreina á námskeiðunum voru frjálsar íþróttir, knattleikir, sund, fimleikar og þjóðdansar, svo eitthvað sé nefnt. Þátttaka í þessum námskeiðum var góð og voru þátttakendur stundum á milli 50 og 60 talsins, en stundum færri. Um og uppúr 1950 var skák nokkuð iðkuð, auk þeirra íþrótta sem áður eru nefndar.
    Um 1960 gáfu hjónin í Meðalheimi, Jón Laxdal og Hulda Jónsdóttir, Ungmennafélaginu land undir íþróttavöll. Á næstu árum var landið ræst fram og unnið eins og þurfti til að fá góðan völl. Íþróttaiðkun innan félagsins var nokkuð í lægð í kringum 1970 en fór aftur að glæðast um 1980. Árið 1982 voru ráðnir þrír þjálfarar til Æskunnar, í frjálsum íþróttum, í handknattleik og í knattspyrnu. Handknattleikur kvenna var æfður í nokkur ár en lognaðist þá útaf, ekki síst vegna aðstöðuleysis. Knattspyrna drengja og karla hefur hins vegar verið stunduð áfram innan félagsins alveg þangað til nú í ár að knattspyrnuæfingar karla voru lagðar niður. Drengjaliðið æfir ennþá, og er mjög efnilegt.
    Sund hefur alltaf aðeins verið stundað og á síðustu árum hefur liðið af og til tekið þátt í mótum U.M.S.E. með ágætum árangri.
    Á síðustu árum hefur félagið átt nokkra góða skákmenn, sem hafa staðið sig með prýði. Þar voru líklega þeir Reimar Helgason og Daníel Pétursson fremstir í flokki en fleiri fylgdu fast á eftir.
    Síðustu árin hafa þó nokkrir félagar spilað bridds og staðið sig með ágætum. Stefán Sveinbjörnsson hefur þar verið mikill hvatamaður. Einnig hefur félagið átt þátttakendur á borðtennismótum, sem hafa staðið sig vel.
    En af öllum þeim íþróttagreinum, sem hafa verið stundaðar í félaginu undanfarin ár, hefur besti árangurinn tvímælalaust náðst í frjálsum íþróttum. Þær hafa verið æfðar af kappi og árangurinn eftir því. Frjálsíþróttafólk á vegum félagsins hefur nokkrum sinnum farið utan til æfinga og hafa þær ferðir allar gengið vel. Æskan eignaðist fyrstu Íslandsmeistarana sína árið 1987, þegar Hreinn Karlsson varð Íslandsmeistari í langstökki með atrennu innanhúss og utanhúss, og í 100 metra hlaupi, auk þess sem Pétur Friðriksson varð Íslandsmeistari í þrístökki án atrennu innanhúss. 
Auk þessara pilta hafa þau Maríanna Hansen, Benedikt Benediktsson, Hreinn Hringsson og Eggert Ólafsson öll staðið sig með miklum sóma og tætt titlum í safnið. Fleiri nöfn mætti eflaust nefna hér, en þetta eru allt ungir og efnilegir einstaklingar, sem eiga eftir að bæta afrek sín í framtíðinni. Til þess að svo megi verða þarf að hlúa svo vel að íþróttamálum félagsins sem síðustu tvær stjórnir þess hafa gert, en hlutur þeirra í þessari velgengni er býsna stór og eiga stjórnarmeðlimir hrós skilið fyrir.
    Undanfarin ár hefur Íþróttadagur Æskunnar verið haldinn á hverju hausti. Þá hittast félagar á öllum aldri og reyna með sér í hinum ýmsu íþróttagreinum. Þátttaka hefur ávallt verið góð og fólk skemmt sér vel. Það er vonandi að þessi árlegi viðburður haldist um ókomin ár.

    Frá því að Ungmennafélagið Æskan var stofnað hafa fjöldamargir einstaklingar setið við stjórnvölinn í lengri eða skemmri tíma. Þar hefur þó enginn verið eins lengi og einn heiðursfélaginn okkar, Guðmundur Benediktsson frá Breiðabóli, en hann var í stjórn í samtals 25 ár.
    Núverandi formaður er Aðalheiður Stefánsdóttir og Pétur Friðriksson til vara, gjaldkeri er Helga Eymundsdóttir og ritari Stefán Sveinbjörnsson. Sigurður Guðbrandsson er meðstjórnandi.
    Tilgangur Ungmennafélagsins Æskunnar hefur lítið breyst í tímans rás. Í lögum félagsins, sem samþykkt voru á aðalfundi þann 29. mars síðastliðinn segir meðal annars:
"Tilgangur félagsins er:
      1. Að hjálpa æskulýðnum til aukins menningarþroska og að sameina hreppsbúa yngri sem eldri til að rökræða þjónytjamál og vinna að framgangi þeirra.
      2. Að vinna að því að skapa heilbrigðan hugsunarhátt meðal æskulýðsins, í meðferð fjármuna sinna, verndun heilsunnar og fegrun og hreinsun móðurmálsins, svo og að vinna að útrýmingu skaðnautna í landinu.
      3. Að stuðla að líkamlegu og andlegu heilbrigði félagsmanna með iðkun íþrótta og leikja, er henta hverju sinni.
                                                                (Gjörðabók Ungmennafélagsins Æskan 6. bindi 1982)

    Ég óska Ungmennafélaginu Æskunni til hamingju með þennan merka aldur og vona að það blási byrlega fyrir félaginu um alla framtíð.
        
                                                                                                                    Svalbarði 7. júlí 1990
                                                                                                                    Kristín S. Bjarnadóttir

Umf. Æskan stofnuð

posted Dec 19, 2010, 3:05 PM by Þorvaldsdalsskokk UMSE

Á aðalfundi Æskufélagsins þann 16. janúar 1910 flutti Aðalheiður Baldvinsdóttir á Veigastöðum það mál: Hvort félagið vildi ekki breyta sér í ungmennafélag fyrir alla í sveitinni? Þetta samþykkti fundurinn.

Aðalheiður hafði unnið á Akureyri og kynnst störfum Ungmennafélags Akureyrar, sem þá stóð með blóma. Um þetta leyti ,veturinn 1910, var unglingaskóli á Efri Dálkstöðum. Æskufélagarnir af framströndinni hreyfðu því við skólasystkini sín, hvort þau vildu ekki að stofnað yrði ungmennafélag fyrir alla sveitina, samanber ályktun aðalfundar Æskunnar.

Unglingarnir hrifust af hugmyndinni. Vildu ganga í félag, ræða áhugamál sín og vinna að framgangi þeirra. Temja sér fundarsköp og fagna meðferð móðurmálsins í ræðu og riti.

Á fundi Æskunnar, sem haldinn var á Meyjarhóli 7. mars 1910 og boðaður var unglingum allrar sveitarinnar, var félaginu breytt í Ungmennafélagið Æskun, sem félag ungmenna sveitarinnar allrar að meðtöldum Víkum. Meðlimir urðu þá þegar 40.

             

Stjórn félagsins:

Ákveðið var að stjórn Æskufélagsins starfaði áfram til aðalfundar U.M.F. Æskunnar, en í henni voru:

              Ferdinand Kristjánsson                            Meyjarhóli              Formaður

              Aðalsteinn Halldórsson                            Geldingsá              Gjaldkeri

              Tryggvi Kristjánsson                                Meyjarhóli              Ritari

Síðar verður getið allra stjórnarnefndarmanna félagsins frá stofnun þess.

Stefnuskrá:

a.                Að reyna af alefli að vekja löngun hjá æskulýðnum til að starfa fyrir sjálfan sig, land sitt og þjóð, með mannúð og réttsýni.

b.                Að temja sér að beita starfskröftum sínum í félagi og utan þess.

c.                Að reyna af fremsta megni að styðja, vernda og efla allt sem þjóðlegt er og horfir íslensku þjóðinni til gagns og sóma.

d.                Að styðja af alefli að útrýmingu tóbaks og áfengra drykkja.

 

Stefnuskrá, lög og reglur eru svipuð enn í dag.

1-2 of 2